Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 874, 118. löggjafarþing 442. mál: kosningar til Alþingis (óbundið þingsæti, kjörskrá o.fl.).
Lög nr. 9 27. febrúar 1995.

Lög um breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. málsl. 2. gr. laganna orðast svo: Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Í stað „8 þingsætum“ í upphafi b-liðar fyrri málsgreinar kemur: 9 þingsætum.
  2. 1. tölul. b-liðar fyrri málsgreinar orðast svo: Í hverju kjördæmi skal deila tölu kjósenda á kjörskrá í næstu almennu alþingiskosningum á undan með tölunum 10, 13, 16, 19 o.s.frv. eins oft og þörf krefur. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvert kjördæmi.
  3. C-liður fyrri málsgreinar fellur brott.

3. gr.

     Í stað „Sameinað Alþingi“ í 8. gr. laganna kemur: Alþingi.

4. gr.

     Í stað „sameinuðu Alþingi“ í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: Alþingi.

5. gr.

     B-liður 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: hreppstjórar.

6. gr.

     Í stað „sjö“ í 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: þremur.

7. gr.

     18. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna.
  1. Í stað „24 dögum“ í 1. mgr. kemur: tíu dögum.
  2. Í stað „Áður en kjörskrá er lögð fram skal“ í upphafi 2. mgr. kemur: Nú er kjörskrá ekki lögð fram á skrifstofu sveitarstjórnar og skal þá.

9. gr.

     20. gr. laganna orðast svo:
     Dómsmálaráðuneytið skal eigi síðar en 12 dögum fyrir kjördag birta í útvarpi og dagblöðum auglýsingu um framlagningu kjörskráa. Í auglýsingunni skal tekið fram að þeir sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá skuli senda þær hlutaðeigandi sveitarstjórn.

10. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni, ef við á. Slíka leiðréttingu má gera fram á kjördag. Óheimilt er að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hefur ekki borist þjóðskrá svo sem segir í 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. eða ef umsókn þess sem fellur undir 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. um að vera tekinn á kjörskrá hefur ekki borist Hagstofu Íslands skv. 2. mgr. 15. gr.
     Sveitarstjórn skal enn fremur fram á kjördag leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát eða um að einhver hafi öðlast, eftir atvikum misst, íslenskt ríkisfang.

11. gr.

     22. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi um leiðréttingar á kjörskrá skv. 21. gr., svo og sveitarstjórn er mál getur varðað.
     Sveitarstjórn skal jafnframt tilkynna hlutaðeigandi kjörstjórn um leiðréttingar á kjörskrá, svo og oddvita yfirkjörstjórnar.

12. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Nú eru fyrirskipaðar kosningar til Alþingis með svo stuttum fyrirvara að ekki er unnt að láta kjörskrá liggja frammi jafnlengi og segir í 19. gr. og skal þá kveða á um það efni í auglýsingu ráðherra um kosningarnar.
     Ráðherra er og heimilt að kveða nánar á um þetta, eftir því sem nauðsynlegt kann að vera, ef gera þarf ráðstafanir út af vanrækslu sveitarstjórnar um samningu kjörskrár, sbr. 17. gr.

13. gr.

     24. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

     Í stað „þann dag þegar tvær vikur eru til kjördags“ í 1. mgr. 26. gr. laganna kemur: 15 dögum fyrir kjördag.

15. gr.

     2. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
     Þegar landskjörstjórn hafa borist gögn frá öllum yfirkjörstjórnum og hún hefur afgreitt listana á þennan hátt skal hún þegar í stað gera almenningi kunna listana með auglýsingu í Lögbirtingablaði og blöðum. Í auglýsingu skal tilgreina bókstaf hvers lista, fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram og nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð, stöðu þeirra og heimili. Jafnframt skal landskjörstjórn birta í útvarpi auglýsingu, og skal þar tilgreina bókstaf hvers lista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram. Auglýsingar þessar skal birta eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.

16. gr.

     57. gr. laganna orðast svo:
     Almennar reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils. Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum, þó að einstöku kosningar hafi ekki farið fram á þeim degi.
     Kjörtímabilið er fjögur ár.

17. gr.

     Í stað „Í hverjum hreppi varðveitir hreppstjóri, en í kaupstað bæjarfógeti (í Reykjavík borgarfógeti) atkvæðakassana og poka, sem þeim fylgja, milli kosninga og sér“ í 1. mgr. 60. gr. laganna kemur: Sýslumenn og hreppstjórar varðveita atkvæðakassana og poka sem þeim fylgja milli kosninga og sjá.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
  1. Í stað „bæjarfógetar (í Reykjavík borgarfógeti)“ í 1. mgr. kemur: sýslumenn.
  2. Í stað „bæjarfógeta (borgarfógeta)“ í 2. mgr. kemur: sýslumanni.
  3. Í stað „bæjarfógeti (borgarfógeti)“ í 3. mgr. kemur: sýslumaður.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 113. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „í fjórum áföngum“ í 3. mgr. kemur: í þremur áföngum.
  2. 4. tölul. 3. mgr. fellur brott.

20. gr.

     2.–4. málsl. 1. mgr. 114. gr. laganna falla brott.

21. gr.

     Orðin „með þeirri undantekningu, er getur í 24. gr.“ í 1. mgr. 127. gr. laganna falla brott.

22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal dómsmálaráðuneytið auglýsa á ný í B-deild Stjórnartíðinda hvernig þingsæti skv. a- og b-lið 5. gr. laganna skiptast milli kjördæma í næstu almennum alþingiskosningum.
II.
     Í kosningum, þeim sem fram fara næst eftir gildistöku laga þessara, getur dómsmálaráðherra ákveðið að kosning skuli standa í tvo daga. Ákvörðun þessa efnis skal ráðherra birta í Ríkisútvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) í síðasta lagi tveimur dögum fyrir kjördag.
     Nú hefur verið ákveðið að kosning skuli standa í tvo daga og getur kjörstjórn þá ákveðið, þegar kosningu er lokið hinn fyrri kjördag, að eigi skuli vera fleiri kjördagar í kjördeildinni, enda sé öll kjörstjórnin sammála og allir umboðsmenn lista, sem mættir eru, samþykkja þá ákvörðun með undirritun sinni í kjörbókina. Hafi 80% eða fleiri kjósenda í kjördeildinni kosið eða fengið vottorð skv. 82. gr. laganna nægir einróma samþykki kjörstjórnar til slíkrar ákvörðunar. Yfirkjörstjórn í Reykjavík og kjörstjórn skv. 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. í öðrum kaupstöðum tekur ákvörðun um lok kosninga í hlutaðeigandi kaupstað.
     Er kosningu er lokið hinn fyrri kjördag skal um meðferð kjörgagna fara eftir ákvæðum 4. mgr. 120. gr.
     Hinn fyrri kjördag skal hvarvetna setja kjörfund eigi síðar en kl. 10 árdegis og hinn síðari kjördag eigi síðar en kl. 12 á hádegi.
     Nú hefur veður hamlað kjörsókn á hinum tveimur kjördögum og getur þá kjörstjórn ákveðið, með sama hætti og segir í 3. mgr. 120. gr. og áður en kosningu lýkur hinn síðari kjördag, að kosningu verði fram haldið á kjörfundi er setja skal eigi síðar en kl. 12 á hádegi næsta dag. Nægir að birta auglýsingu þar um í útvarpi. Um meðferð kjörgagna fer þá eftir ákvæðum 4. mgr. 120. gr.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.